Viðskipti innlent

Bakslag í rannsókn á Tchenguiz-bræðrunum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Vincent Tchenguiz.
Vincent Tchenguiz.
Ákveðið bakslag virðist hafa komið í rannsókn SFO, efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, á bræðrunum Roberts og Vincent Tchenguiz sem voru einir stærstu lántakendur Kaupþings fyrir hrun. Handtökutilskipun sem gefin var út á hendur Vincent Tchenguiz virðist hafa byggst á röngum forsendum og þar með verið ólögmæt.

Serious Fraud Office mun skila gögnum sem haldlögð voru í húsleit á skrifstofu bresk-íranska kaupsýslumannsins Vincent Tchenguiz. SFO hefur viðurkennt að ákveðin mistök hafi verið gerð við rannsóknina en Tchenguiz var handtekinn ásamt bróður sínum, Robert, vegna rannsóknar á viðskiptum þeirra við Kaupþing banka. Frá þessu er greint í breska dagblaðinu Telegraph í dag.

Níu mánuðir eru síðan bræðurnir voru handteknir auk sjö annarra og færðir til yfirheyrslu í umfangsmiklum aðgerðum á vegum SFO í Lundúnum vegna rannsóknar stofnunarinnar á aðdraganda falls Kaupþings, en stofnunin hefur verið í nánu sambandi við embætti sérstaks saksóknara á Íslandi vegna málsins og nokkurra annarra sem tengjast starfsemi íslensku bankanna í Bretlandi.

Lögfræðiteymi Vincent Tchenguiz gerði margvíslegar athugasemdir við handtökutilskipun og húsleit sem gerð var á skrifstofu hans. Þar sem SFO hefur ekki getað hnekkt þeim athugasemdum sem lögmenn Tchenguiz gerðu við húsleitina og handtökutilskipunina þarf breska lögreglan að greiða lögfræðikostnað hans vegna málsins.

Mál SFO gegn bræðrunum verður ekki fellt niður en hún snýr að lánveitingum til þeirra og veðtryggingum sem þeir lögðu fram, en í félaginu Pennyrock á Vincent gríðarlegt fasteignasafn sem skilar af sér miklum leigutekjum og þær hafa verið veðsettar fyrir 100 milljóna punda láni hjá Kaupþingi.

Haft er eftir Vincent Tchenguiz í Telegraph að hann sé sáttur að SFO hafi fallist á greiðslu lögfræðikostnað hans. Hins vegar sé tjón aðgerðanna gegn honum, bæði fjárhagslegt og á mannorði hans, mun stórtækara og að hann hyggist leita réttar síns fyrir dómstólum og krefjast skaðabóta. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×