Viðskipti innlent

2500 kall meira í skatt

Hafsteinn Hauksson skrifar
Meðallaunamaður greiðir 2500 kalli meira í skatta á mánuði á næsta ári, en lægra hlutfall tekna sinna. Skatthlutföll breytast nánast ekkert, en viðmiðunarmörk þrepaskattsins hækka og persónuafslátturinn líka.

Tekjuskatturinn tekur tiltölulega litlum breytingum um áramótin eftir miklar breytingar á skattkerfinu undanfarin ár.

Áfram greiða launþegar tekjuskatt í þremur þrepum, en skatthlutföllin eru alveg óbreytt frá því á árinu 2011. Mörkin á milli fyrsta og annars þreps hækka raunar um tæpa tíund og verða 230 þúsund krónur eftir áramót, en mörkin milli annars og þriðja þreps hækka mun minna og verða tæpar 705 þúsund krónur á nýju ári.

Þar sem neðri þrepamörkin hækka meira en þau efri má ætla að skattar leggist hlutfallslega þyngra á þá tekjuhærri en þá tekjulægri.

Þá hækkar persónuafslátturinn um 5,2 prósent, álíka mikið og verðbólgan á árinu, og verður tæpar 47 þúsund krónur.

Meðalstaðgreiðsluhlutfallið hækkar lítillega, eða um 0,03 prósentustig, en það skýrist fyrst og fremst af því að Reykjavíkurborg hækkaði útsvarið. Nú er svo komið að 67 af 75 sveitarfélögum leggja á hámarksútsvar, en aðeins tvö lágmarksútsvar.

Fréttastofu reiknast til að dæmigerður launamaður hafi haft um 370 þúsund krónur í reglulegar heildartekjur á mánuði í ár, en þær verði orðnar yfir 380 þúsund krónur á næsta ári að teknu tilliti til samningsbundinna launahækkana.

Allt það sem áður var talið mun hafa þau áhrif á þennan meðaljón að hann greiðir rúmar hundrað þúsund krónur í skatt á nýju ári, sem er um 2500 kalli meira en í fyrra, en hins vegar 0,2 prósentustigum lægra hlutfall tekna hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×