Viðskipti innlent

Dalurinn hefur rokið upp um 10 krónur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Bjarki Bentsson hjá Greiningu Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson hjá Greiningu Íslandsbanka.
Bandaríkjadalur hefur hækkað um tíu krónur á tæplega tveggja mánaða tímabili, eða frá því í byrjun nóvember. Þetta þykir nokkuð skörp hækkun. Jón Bjarki Bentsson, hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að skýringin liggi fyrst og fremst í tveimur þáttum. Annars vegar til þess að dalurinn hafi verið að styrkja sig töluvert alþjóðlega, einkum vegna óvissu í tengslum við skuldakreppuna í Evrópu. „Þá hefur krónan jafnframt verið að veikjast og er talið að þar sé um árstíðabundna lækkun að ræða," segir Jón Bjarki.

Jón Bjarki segir að þessa árstíðabundnu sveiflu í gengi krónunnar megi rekja til tveggja þátta. Annars vegar hafi flæði ferðamannagjaldeyris inn í landið minnkað verulega frá því í sumar. „Svo er útflæði gjaldeyris í nóvember og framan af í desember sem tengist jólaverslun," segir Jón Bjarki. Þessi tími ársins, þegar þessir tveir þættir verki saman, sé kannski sá tími þar sem krónan er veikust fyrir. Jón Bjarki á von á að gengi krónunnar muni hækka á vormánuðum á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×