Viðskipti innlent

Sérstakur ákærir fimm fyrir skattalagabrot

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fimm einstaklingar voru ákærðir vegna vangoldinna vörsluskatta rétt fyrir hátíðarnar.
Fimm einstaklingar voru ákærðir vegna vangoldinna vörsluskatta rétt fyrir hátíðarnar.
Sérstakur saksóknari hefur ákært fimm einstaklinga fyrir að hafa vantalið vörsluskatta í atvinnustarfsemi. Ákærur voru gefnar út í vikunni fyrir jól.

Fyrr í þessum mánuði voru þeir Lárus Welding og Guðmundur Hjaltason ákærðir fyrir umboðssvik vegna lánveitinga til Milestone fyrir hrunið. Þetta voru þó ekki einu ákærur sérstaks saksóknara í þessum mánuði.

Gefnar voru út ákærur í fimm skattamálum rétt fyrir hátíðarnar en engin þeirra tengist föllnu stóru bönkunum þremur.

Um er að ræða mál sem embætti sérstaks saksóknara tók yfir þegar efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sameinaðist embættinu 1. september síðastliðinn.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari sagði í samtali við fréttastofu að í öllum tilvikum hafi verið um að ræða einstaklinga sem ákærðir voru vegna vangoldinna vörsluskatta í atvinnustarfsemi fyrirtækja sem þeir tengdust. Hann sagði að ákærurnar hefðu verið gefnar út síðustu vikuna fyrir jól.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst er í engum tilvikum um þekkta einstaklinga að ræða en umfang meintra brota hleypur á milljónum króna og því er um lítil mál að ræða í samanburði við önnur sem embættið hefur haft til rannsóknar. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×