Viðskipti innlent

Samherji fær verðlaun

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja. mynd/ sigurjón.
Samherji hf. hlýtur Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins fyrir árið 2011. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri, veittu verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn í hádeginu að því er fram kemur í tilkynningu en það var Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem afhenti verðlaunin.

„Samherji er í dag alþjóðlegt sjávarútvegs- og matvælaframleiðslufyrirtæki og hefur þá sérstöðu að vera með stærri hluta af umsvifum sínum utan Íslands. Þá hafa síðustu tvö ár verið Samherja sérstaklega hagfelld og fjárfestingar félagsins í Frakklandi, á Spáni og í Kanada hafa þegar skilað félaginu tekjum. Samherji hefur einnig aukið bein umsvif sín hér á landi, nú síðast með kaupum á Útgerðarfélagi Akureyrar," segir ennfremur í rökstuðningi fyrir útnefningunni.

„Samherji sendir í dag út um 700 launaseðla í hverjum mánuði hér á landi. Erlend fyrirtæki sem Samherji á hlut í hafa nú á hálfu ári gert samninga við íslensk iðnfyrirtæki fyrir um 900 milljónir króna. Það er því óhætt að segja að samfélagslegu áhrifin af starfsemi Samherja eru gífurleg hér á landi," sagði Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, við afhendingu verðlaunanna nú fyrir stundu.

Þá hlaut nýsköpunarfyrirtækið Meniga Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 2011 sem einnig voru veitt í dag. Það var Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, sem veitti verðlaununum viðtöku.

„Meniga hefur hannað heimilisbókhaldslausn sem allir stóru viðskiptabankarnir hér á landi hafa tekið í notkun. Lausnin auðveldar fjölskyldum að fylgjast náið með eyðslu og tekjum heimilisins án mikillar fyrirhafnar þar sem sjálfvirkni er í fyrirrúmi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×