Erlent

Ormur sem lyktar eins og rotin egg orðinn plága í Danmörku

Danskir líffræðingar og vísindamenn hafa miklar áhyggjur af útbreiðslu á hringormi í farvatninu undan öllum ströndum Danmerkur.

Hringormur þessi er grænn að lit og lyktar eins og rotin egg. Hann er orðinn að plágu undan ströndum Danmerkur og líkja Danir honum við Spánarsnigilinn sem valdið hefur verulegum skemmdum á gróðri og görðum þarlendis.

Hringormurinn eyðir stórum hluta af lífríki því sem hann tekur sér bólfestu í og það er að gerast í öllum víkum og fjörðum Danmerkur. Útbreiðslan er það ör að flákar af þessum ormi í víkum og fjörðum sjást vel á gervihnattamyndum. Á sumum stöðum hafa fundist allt að þúsund ormar á hverjum fermetra.

Hringormurinn er upprunninn við norðausturströnd Bandaríkjanna og talið er að hann hafi borist til Danmerkur með kjölfestuvatni stórra flutningaskipa.

Erik Kristensen haflíffræðingur við Syddansk háskólann segir að útbreiðsla ormsins við strendur Danmerkur sé svo ör og yfirgripsmikil að hann sé orðinn álíka plága og Spánarsnigillinn sem Danir kalla raunar Drápssnigilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×