Handbolti

HM kvenna 2011: Þær dönsku sluppu með skrekkinn á móti Japan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Sigurganga danska kvennalandsliðsins í handbolta á HM í Brasilíu endaði næstum því í sextán liða úrslitum keppninnar í kvöld þegar þær unnu 23-22 sigur á móti Japan í framlengdum leik í sextán liða úrslitum keppninnar. Danir og Norðmenn komust því í átta liða úrslitin en Íslands og Svíþjóð eru úr leik.

Ann Grete Nørgaard tryggði danska liðinu framlengingu með því að jafna metin úr vítakasti eftir að leiktíminn rann út. Japan var með þriggja marka forskot þegar aðeins fimm mínútur voru eftir.

Christina Pedersen átti frábæran leik í danska markinu og tryggði sínu liði meðal annars sigurinn með því að verja lokaskot leiksins.

Dönsku stelpurnar voru með frumkvæðið framan af leik en skoruðu ekki fimm síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik og á meðan breyttu þær japönsku stöðunni úr 9-8 í 9-11. Japan var síðan með frumkvæðið allan seinni hálfleikinn og virtist vera að landa sigrinum þegar liðið komst í 19-16 þegar aðeins fimm mínútur voru eftir.

Dönsku stelpurnar áttu hinsvegar frábæran endasprett og sluppu með skrekkinn. Þær voru síðan með frumkvæðið alla framlenginguna.

Dönsku stelpurnar unnu alla fimm leiki sína í riðlinum og voru að mæta Japan sem tapaði meðal annars með 19 marka mun í sínum fyrsta leik á móti Frakklandi. Japan vann tvo síðustu leiki sína í riðlinum og tryggði sér sæti í 16 liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×