Viðskipti innlent

Húsavík efst á óskalista PCC fyrir kísilver

Ráðamenn þýska félagsins PCC sitja þessa stundina á íbúafundi á Húsavík um kísilmálmverksmiðju en Ísland er nú fyrsti valkostur af þremur sem fyrirtæki hafði til skoðunar. Þeir vonast til að unnt verði að taka ákvörðun eftir sex mánuði og að framkvæmdir hefjist á árinu 2013.

PCC er með höfuðstöðvar í Duisburg í Þýskalandi og það segir sitt um þann þunga sem félagið leggur nú í verkefnið að það sendi tvo fulltrúa sína með einkaþotu til Íslands í morgun til fundar við Þingeyinga. Cessna Citation-þotan lenti á Akureyrarflugvelli á ellefta tímanum en fundurinn á Húsavík hófst klukkan hálfsex í kvöld. Þar eru kynnt áform, sem - ef af verður, - valda straumhvörfum í atvinnu- og byggðamálum Norðurlands.

PCC var með þrjú lönd til skoðunar undir verksmiðjuna en nú er Ísland orðið fyrsta val, eins og fram kom á Akureyrarflugvelli í viðtali Hildu Jönu Gísladóttur frá N4 við Sabine König málmverkfræðing, fulltrúa PCC.

„Þegar við komum hingað höfðum við skoðað ýmsa staði og eftir að hafa talað við ýmsa aðila sem myndu taka þátt í þessu verkefni á Íslandi komumst við að þeirri niðurstöðu að Húsavík yrði staðurinn þar sem fyrsta hagkvæmnisathugunin færi fram," sagði Sabine König.

En hvenær gæti ákvörðun PCC legið fyrir og hvenær gætu framkvæmdir hafist?

„Við teljum að það gæti verið raunhæft að byrja 2013," svarar Sabine og vonast til hægt verði að taka ákvörðun eftir sex mánuði.

Framkvæmdir við bæði kísilverksmiðju og virkjanir kalla á mörghundruð störf fyrir norðan og þegar rekstur hefst verða til 120 til 150 störf á Bakka.

„Þetta er fjárfesting upp á rúmlega hundrað milljónir evra svo þarna er um mikil verðmæti að ræða," segir fulltrúi PCC.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×