Viðskipti innlent

Allt að 30 félög vilja á markað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Páll Harðarson er forstjóri Kauphallarinnar.
Páll Harðarson er forstjóri Kauphallarinnar.
Allt að þrjátíu félög íhuga skráningu í Kauphöllina á næstu tveimur til þremur árum. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segist ekki eiga von á því að öll félögin muni skila sér á endanum en þetta sýni að áhuginn fyrir skráningu sé mikill. Það ríkir mikil eftirvænting fyrir morgundeginum en þá verða Hagar, sem reka meðal annars Bónus og Hagkaup, skráð í Kauphöllina. Það er fyrsta skráningin í rösklega þrjú ár.

„Það hefur sýnt sig og maður hefur fundið að það er mikill áhugi hjá fjárfestum að koma inn á markaðinn," segir Páll. Hann bætir því við að útboð með hlutabréf í Högum á dögunum hafi sennilegast orðið til þess að ýta undir þennan áhuga, enda hafi eftirspurn eftir bréfum í Högum verið áttföld á við framboðið.

Páll bendir á fréttir þess efnis að Horn, dótturfélag Landsbankans, sé í skráningarferli. Hið sama eigi við um Eimskip og fasteignafélögin Reginn og Reiti. Þá hafi Skýrr líka lýst yfir áhuga á skráningu og fjölmörg önnur félög sem hafi haft samband við Kauphöllina vegna þessa en ekki tilkynnt það opinberlega. „Þannig að ég held að það verði afgerandi hreyfing á næsta ári og svona frameftir árinu 2013," segir Páll.

Aðspurður segist Páll telja að lagaumhverfið sé nógu þroskað til að traust geti ríkt í garð hlutabréfamarkaðarins. „Ég met það þannig að því sé ekki áfátt," segir Páll. Að mestu sé um að ræða samevrópskt lagaumhverfi en einnig hafi verið gerðar lagabreytingar þar sem svigrúm hafi verið til. Meðal annars til að auka við minnihlutavernd. Þá sé núna hægt að fara í hópmálsókn.

Sem fyrr segir ríkir eftirvænting í Kauphöllinni fyrir væntanlegum skráningum fyrirtækja og segir Páll að þetta sé bæði jákvætt fyrir markaðinn og Ísland í heild. „Ég held að þetta sé jákvætt fyrir Ísland út á við. Miðað við efnahagsástandið úti og óróann sem er þar og hefur áhrif á markaði, þá er þetta svona traustsyfirlýsing og til merkis um það að hlutirnir séu að hreyfast í rétta átt hjá okkur," segir Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×