Viðskipti innlent

Samningar um þriðja kísilverið langt komnir

Frá Húsavík.
Frá Húsavík.
Fyrirtækið Thorsil hefur sótt um lóð á Bakka undir kísilver og er langt komið með orkusamning við Landsvirkjun. Þetta er þriðja verksmiðjan af þessu tagi sem nú er í farvatninu hérlendis og gæti skapað 360 framtíðarstörf á Norðurlandi.

Einkaþotan sem lenti á Akureyrarflugvelli í vikunni með fulltrúa þýska félagsins PCC var skýr vísbending um þá alvöru sem komin er í undirbúning kísilverksmiðju þess félags á Húsavík. En Þjóðverjarnir eru ekki einu útlendingarnir sem áforma uppbyggingu í kísilmálmiðnaði hérlendis. Íslenska kísilfélagið, með bandaríska fyrirtækið Globe Speciality Metals sem bakhjarl, er komið lengst, - undirritaði samninga í febrúar á þessu ári um verksmiðju í Helguvík og stefnir nú að því að hefja framkvæmdir þar fljótlega eftir áramót.

Þriðja félagið, sem vill hasla sér völl á þessum vettvangi hérlendis, Thorsil, undirritaði raunar samkomulagsramma við Orkuveitu Reykjavíkur fyrir nærri tveimur árum en þá hugðist félagið reisa kísilverksmiðjuna í Þorlákshöfn, með kandíska félagið Timminco sem aðalfjárfesti. Eftir að ljóst varð í vor að Orkuveitan gæti ekki útvegað Thorsil 85 megavött raforku sneri félagið sér til Landsvirkjunar, og samkvæmt heimildum Stöðvar 2 liggur nú fyrir rammi að samningi milli félaganna um raforkukaup frá nýjum orkuverum í Þingeyjarsýslum.

Thorsil hefur einng sótt um lóð á Bakka með það í huga að framkvæmdir hefjist eftir rúmt ár og greint þingnefnd frá þeim áformum sínum að verksmiðjan verði gangsett snemma árs 2015. Þar verði til 160 störf og um 200 afleidd störf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×