Viðskipti innlent

Iceland Express stundvísari en Icelandair

Iceland Express.
Iceland Express.
Fleiri brottfarir Iceland Express fóru í loftið á réttum tíma en hjá Icelandair á fyrri hluta mánaðarins. Komutímar þess fyrrnefnda héldu þó aðeins í innan við þriðjungi tilfella samkvæmt frétt sem birtist á vef Túristans.

Þar kemur fram að komu- og brottfarartímar á Keflavíkurflugvelli stóðust ekki áætlun í fjöldamörgum tilvikum fyrstu tvær vikurnar í desember. Á móti kemur að tafirnar voru oftast litlar og því var meðalbiðtíminn stuttur hjá bæði farþegum Icelandair og Iceland Express.

Það voru sérstaklega ferðir til landsins sem seinkaði oft og aðeins 28 prósent af komum Iceland Express voru á réttum tíma og 55 prósent hjá Icelandair.

Í fyrsta skipti síðan Túristi hóf að reikna út stundvísitölur sínar héldu flug Iceland Express frá landinu oftar áætlun en hjá Icelandair. Í heildina biðu farþegar þó aðeins í 11 mínútur hjá báðum félögum.

Þess ber að geta að stundvísitölur Túrista eru byggðar á upplýsingum af heimasíðu Keflavíkurflugvallar og þar koma ekki fram ástæður seinkanna. Því er ekki tekið tillit til þess þegar ófærð veldur töfum á flugi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×