Viðskipti innlent

Búið að ganga frá sölu Húsasmiðjunnar

Framtakssjóður Íslands hefur selt rekstur og eignir Húsasmiðjunnar til dönsku byggingavörukeðjunnar Bygma Gruppen A/S. Söluferli Húsasmiðjunnar hefur staðið frá því í ágúst síðastliðnum og átti Bygma hæsta tilboð í fyrirtækið. Heildarvirði samningsins nemur um 3,3 milljörðum króna og felur hann í sér að Bygma tekur yfir vaxtaberandi skuldir Húsasmiðjunnar að upphæð um 2,5 milljarðar króna og greiðir að auki 800 milljónir króna í reiðufé.

Bygma tekur einnig yfir aðrar skuldir Húsasmiðjunnar, alla ráðningarsamninga við starfsfólk, leigusamninga og aðrar rekstrartengdar skuldbindingar, eftir því sem kemur í tilkynningu frá Framtakssjóðnum. Engar skuldir eru afskrifaðar í tengslum við söluna og verður starfsemin áfram undir merkjum Húsasmiðjunnar eftir að nýr eigandi tekur við fyrirtækinu 1. janúar 2012.

Bygma er danskt einkafyrirtæki sem selur og dreifir timbri og byggingavörum. Bygma starfrækir yfir 65 verslanir í Danmörku, Svíþjóð og Færeyjum með um það bil 1600 starfsmönnum. Vörusala Bygma á árinu 2011 nemur um €630 milljónum, sem nemur um 100 milljörðum íslenskra króna. Bygma var stofnað fyrir tæpum 60 árum og hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi.


Tengdar fréttir

Bygma er að ganga frá kaupum á Húsasmiðjunni

Danska byggingavörukeðjan Bygma A/S mun ganga frá kaupum á Húsasmiðjunni í byrjun þessarar viku. Heimildir Fréttablaðsins herma að náðst hafi samkomulag milli Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) og dönsku kaupendanna um þá niðurstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×