Viðskipti innlent

Forstjóri Norðuráls ánægður með niðurstöður í máli gegn HS orku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
HS Orku er skylt að afhenda Norðuráli orku eins og félögin höfðu samið um. Þetta eru niðurstöður úr gerðardómsmáli varðandi gildi orkusölusamnings milli HS Orku og Norðuráls Helguvík. Gerðardómurinn, sem féll í Svíþjóð, var kynntur í dag. Samkvæmt samningnum, sem undirritaður var árið 2007, ber HS Orku að afhenda orku til nýrrar álverksmiðju sem Norðurál er að reisa í Helguvík.

Niðurstöður gerðardómsins voru ekki einhliða þar sem báðir aðilar fengu jákvæða niðurstöðu í ákveðnum atriðum kröfugerðar sinnar, eftir því sem fram kemur í tilkynningu HS orku til Kauphallarinnar. Þar segir að þó úrskurðurinn kveði á um ákveðna afhendingarskyldu HS Orku til hins nýja álvers sé sú afhendingarskylda háð því að uppfyllt verði nokkur skilyrði sem gerðardómurinn úrskurðaði að ekki hefðu verið uppfyllt. Gerðardómurinn hafnaði kröfu Norðuráls um skaðabætur.

„Við erum ánægð með niðurstöðu gerðardómsins og vonumst til þess að Norðurál og HS Orka geti tekið höndum saman við að koma framkvæmdum í Helguvík á fullan skrið sem allra fyrst," segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls í tilkynningu til fjölmiðla.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×