Viðskipti innlent

Stjórnarmenn lásu um viljayfirlýsinguna í fjölmiðlum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kjartan Magnússon er afar óhress yfir samráðsleysi um söluferli Perlunnar.
Kjartan Magnússon er afar óhress yfir samráðsleysi um söluferli Perlunnar.
Stjórn Orkuveitunnar fékk ekki í hendur neinar upplýsingar um einstök tilboð í Perluna áður en skrifað var undir viljayfirlýsingu um söluna við hæstbjóðanda. Þetta fullyrðir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður i OR. Hann segir að slík gögn hafi verið send stjórnarmönnum með tölvupósti laust fyrir klukkan þrjú í dag eftir að stjórnarmenn höfðu lesið um umrædda viljayfirlýsingu í fjölmiðlum í morgun.

Kjartan segir jafnframt að umrædd viljayfirlýsing hafi verið undirrituð af forstjóra Orkuveitunnar 24. nóvember síðastliðinn en hún hafi ekki enn verið borin upp í stjórn fyrirtækisins til kynningar eða samþykktar. Hann segir að viljayfirlýsingin hafi verið send stjórnarmönnum í tölvupósti laust fyrir klukkan fjögur í dag eftir að hann hafði óskað sérstaklega eftir henni.

„Afar ámælisvert er að slík viljayfirlýsing um sölu á einni af stærstu eign Orkuveitunnar sé undirrituð án þess að stjórn fyrirtækisins sé fyrst upplýst. Þaðan af síður var reynt að afla samþykkis stjórnar fyrir viljayfirlýsingunni þrátt fyrir að fimm stjórnarfundir hafi verið haldnir frá því tilboðsfrestur rann út 18. október síðastliðinn," segir Kjartan. Hann bætir því við að á fundi stjórnar Orkuveitunnar sl. föstudag hafi fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna gert alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð meirihluta stjórnar OR, að leggja ekki gögn um sölu Perlunnar fyrir stjórn þrátt fyrir að tveir mánuðir væru liðnir frá því að tilboðsfrestur rann út.

Kjartan tekur fram að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi stutt þá ákvörðun í júní síðastliðnum að setja Perluna á sölulista og gefa einkaaðilum þannig kost á að leggja fram kauptilboð og hugmyndir um hvernig hægt væri að nýta mannvirkið enn frekar í þágu Reykvíkinga og ferðaþjónustu í borginni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×