Handbolti

HM 2011: Rússland og Spánn áfram úr B-riðli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tatiana Khmyrova og félagar í rússneska landsliðinu virðast ógnarsterkir.
Tatiana Khmyrova og félagar í rússneska landsliðinu virðast ógnarsterkir. Nordic Photos / AFP
Ef Ísland kemst áfram í 16-liða úrslitin með því að enda í fjórða sæti A-riðils munu stelpurnar okkar mæta heimsmeisturum Rússlands á sunnudaginn kemur.

Eins og fjallað er um hér fyrir neðan getur Ísland lent í 2.-5. sæti A-riðils en lokaumferð riðlakeppninnar fer fram á föstudaginn. Fjögur efstu liðin í hverjum riðli komast áfram í 16-liða úrslitin, sem hafa tekið við af milliriðlafyrirkomulaginu sem hingað til hefur verið við lýði á HM.

Fjögur efstu liðin í A-riðli spila „í kross“ við fjögur efstu liðin í B-riðli í 16-liða úrslitunum. Þannig mætir efsta lið A-riðils liðinu sem varð í fjórða sæti B-riðils, 2. sætið í A-riðli mætir 3. sætinu í B-riðli og svo framvegis.

Rússland, núverandi heimsmeistari, hefur þegar tryggt sér sigurinn í B-riðli en það gerði liðið með ellefu marka sigri á Hollandi í gær, 35-26. Spánn tryggði sér annað sætið með 27-18 sigri á Kasökum.

Þar með er ljóst að Rússland mætir liðinu sem verður í fjórða sæti í A-riðli og Spánverjar liðinu sem verður í þriðja sæti í A-riðli.

Holland og Suður-Kórea eru sömuleiðis komin áfram en þessi lið mætast í hreinum úrslitaleik á föstudaginn um hvort liðið verði í þriðja sæti riðilsins.

Yfirburðir Rússa í riðlinum hafa verið með ólíkindum en liðið hefur unnið leikina sína fjóra með samtals 67 marka mun. Rússar mæta Kasökum á föstudaginn og munu líklega taka þann leik „með vinstri“.

Ástralía er í neðsta sæti B-riðils án stiga og en þessu fastagestir á heimsmeistaramótum í handbolta hafa tapað öllum fjórum leikjunum sínum til þessa með markatölunni 43-180.


Tengdar fréttir

HM 2011: Ísland á enn möguleika á 2.-5. sæti í A-riðli

Stelpurnar okkar geta enn náð öðru sætinu í A-riðli á HM 2011 í Brasilíu með sigri á Kína og hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum. Sterk lið bíða Íslandi í 16-liða úrslitunum ef stelpurnar komast áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×