Innlent

Skora á Össur að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki

Félagið Ísland-Palestína skorar á Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra að lýsa þegar í stað yfir viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Palestínumenn áforma að sækja um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum í New York á föstudaginn kemur en félagið segir enga ástæðu til að bíða eftir því, enda alls óvíst hvort eða hvernig málið verði flutt þar.

Taki Össur áskoruninni yrði Ísland fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna Palestínu sem fullgilt ríki. Í áskoruninni segir að Íslandi væri sómi að því að verða fyrst vestrænna ríkja til að viðurkenna Palestínu. Sú viðurkenning gæti orðið til þess að fleiri ríki fylgdu á eftir.

Félagið minnir á samhljóða ályktun Alþingis frá 18. maí 1989 sem meðal annars lagði áherslu á að virða bæri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna.

Þá segir að lítill vafi leiki á því að íslenska þjóðin styðji þessa stefnu Alþingis og baráttu Palestínumanna gegn hernámi og fyrir sjálfstæði og fullveldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×