Innlent

Fjögurra ára barn í offitumeðferð

LVP skrifar
Börnin í meðferðinni eru á ólíkum aldri.
Börnin í meðferðinni eru á ólíkum aldri. Mynd/ AFP.
Sextíu börn munu hefja meðferð vegna offitu á nýrri göngudeild Barnaspítala Hringsins í október. Það yngsta er fjögurra ára.

Í apríl var opnuð göngudeild á Barnaspítala Hringsins fyrir börn sem þurfa meðferð vegna offitu og hefja fyrstu börnin von bráðar meðferð. „Það eru um það bil hundrað börn sem eru núna á lista hjá okkur. Við erum að klára að fara yfir sextíu og þau börn munu hefja meðferð núna í október  og hin verða þá áfram á biðlista þar til okkur tekst að halda áfram með  meðferð eftir áramót,“ segir Þrúður Gunnarsdótttir, doktor í meðferð offitu barna.

Börnin eru á öllum aldri. „Þau eru alveg frá því að vera svona fjögurra ára og ég held að elstu séu svona átján tuttugu ára,“ segir Þrúður. Gert er ráð fyrir að foreldrar barnanna taki þátt í meðferðinni og annað foreldrið breyti þá mataræði sínu og hreyfingu eins og barnið.

„Þetta er lífstílsmeðferð þar sem við erum að hjálpa fjölskyldum. Þetta er þá barn og oft  foreldri líka sem er að taka þátt í meðferðinni. við erum að hjálpa þeim að breyta lífstíl og breyta þá mataræði og  auka hreyfingu og svoleiðis og við erum að kenna þeim ýmsar aðferðir til að hjálpa þeim að gera það.“

Meðferðin sem notuð verður var prófuð á átta til tólf ára börnum á árunum 2006-2009. „Við vorum búin að gera rannsóknir á þessu síðustu ár og við vitum að meðferðin virkar  og hún kemur að gagni fyrir stóran hluta af börnunum sem fara í gengum þetta. Að meðaltali er hún að virka mjög vel.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×