Innlent

Framsóknarmenn vilja lögsækja breska ríkið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er í forsvari fyrir Framsóknarmenn sem vilja undirbúa lögsókn á hendur breska ríkinu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er í forsvari fyrir Framsóknarmenn sem vilja undirbúa lögsókn á hendur breska ríkinu.
Framsóknarflokkurinn hyggst leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að mál verði höfðað á hendur breskar ríkinu vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Framsóknarmenn lögðu tillöguna fram á síðasta þingi, en þá hlaut hún ekki afgreiðslu.

Tillagan felur í sér að höfðað verði mál á hendur breska ríkisins fyrir alþjóðlegum dómstól. Forsætisráðherra undirbúi málið. Einnig verði gerð krafa um skaðabætur fyrir það tjón sem hryðjuverkalögin ollu á Íslandi.

Í gær lagði fjármálaráðuneytið fram skýrslu sem tekin var saman um tjón það sem lögin ollu á Íslandi. Niðurstaða skýrslunnar er að beint tjón hlaupi á tveimur til níu milljörðum króna. Ómögulegt sé hins vegar að meta tjónið sem hlýst af löskuðu orðspori landsins. Þess skal þó getið að höfundar skýrslunnar gera mikla fyrirvara við niðurstöður hennar, enda erfitt að meta tjónið með óyggjandi hætti.

Vegna þessa telja framsóknarmenn sýnt að fullt tilefni sé til umræddrar málshöfðunar. Þeir munu því leggja tillöguna fram á næsta þingi, en það hefst 1. október.

Fram kom í fréttum RÚV í hádeginu í dag að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vilji athuga hvort mögulegt sé að sækja bætur vegna beitingu laganna. Því getur verið að Bjarni snúist á sveif með framsóknarmönnum og styðji tillögu þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×