Innlent

Launaskriðið ekki skilað sér til opinberra starfsmanna

SFR stéttarfélag í almannaþjónustu hefur birt niðurstöður nýrrar launakönnunar sem unnin er samhliða launakönnun VR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Í könnun SFR kemur í ljós að þeim fjölgar sem þurfa að nota sparifé sitt til að ná endum saman ef borið er saman við sömu könnun fyrir ári. Staða heimilanna er svipuð hjá SFR og Starfsmannafélagi borgarinnar samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, en rúmlega þriðjungur heimila félagsmanna notar sparifé til að ná endum saman eða safnar skuldum. Í tilkynningu frá SFR segir að staða heimila félagsmanna er töluvert lakari en á meðal almennings á sama tíma.

Þá hefur launamunur kynjanna aukist á ný eftir að hafa dregist saman árið 2010 og er hann nú 13,2%. „Til samanburðar má geta þess að kynbundinn launamunum hjá félagsmönnum í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar í sömu könnun  er um 9,2% og hjá VR félögum um 10%. Greining á hækkun heildarlauna eftir kynjaskiptingu starfsstétta hjá SFR sýnir einnig að heildarlaun kvennastétta (þar sem konur eru 70% eða stærri hluti) hækka minna en karlastéttir og blandaðar stéttir og er það verulegt áhyggjuefni," segir ennfremur.

Óánægja félagsmanna SFR með laun sín mælist nú 60 prósent og hefur hún aukist í þrjú ár í röð. „Enda sýna niðurstöður að heildarlaun félagsmanna SFR hækka einungis um 1% á milli ára. Þessar niðurstöður eru afar athyglisverðir þegar haft er í huga að í júní 2010 var krónutöluhækkun á laun upp að 306 þúsund hjá ríkisstarfsmönnum sem metin var til um 2,3% hækkunar að meðaltali og aðrir félagsmenn SFR fengu 2,5%. Þessar hækkanir virðast hins vegar ekki hafa skilað sér að fullu til hækkunar á meðalheildarlaunum félagsmanna SFR."

„Ef skoðað er fyrirkomulag launagreiðslna má sjá að tæplega 30% starfsmanna fá einungis greidd grunnlaun án nokkurra aukagreiðslna eða yfirvinnu. Einungis  37% starfsmanna fá greidda yfirvinnu en það eru talsvert færri en síðustu ár."

Launabilið á milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna hefur aukist á milli ára og er nú nítján prósent. „Heildarlaun starfsmanna á almennum vinnumarkaði hækka um 4,5% meðan laun opinberra starfsmanna hækka einungis að meðaltali um 1%, eins og áður var sagt." Í tilkynningu frá SFR segir að í fyrra hafi þessi munur á milli félaga verið 18% og árið 2009 var hann 15%. „Í krónum talið var munurinn á meðalheildarlaunum VR og SFR í fyrra 97 þúsund á mánuði en í ár er munurinn 112 þúsund á mánuði að meðaltali. Lítill launamunur heildarlauna mælist hins vegar á milli félagsmanna SFR og félagsmanna hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar."

„Þessar niðurstöður sýna svo ekki verður um villst að launaskriðið á vinnumarkaði hefur ekki náð  til opinbera starfsmanna,“ segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×