Viðskipti innlent

Turner Broadcasting vill kaupa Latabæ

Magnús Scheving, forstjóri og stofnandi Lazytown Entertainment.
Magnús Scheving, forstjóri og stofnandi Lazytown Entertainment.
Fjölmiðlarisinn Turner Broadcasting hefur gert tilboð upp á 1,4 milljarða króna í allt hlutafé Latabæjar, en áform eru um að framleiða nýja seríu af þáttunum fyrir alþjóðlegan markað. Yfirtökutilboð Turner Broadcasting, fyrir alls 12 milljónir Bandaríkjadala, gerir ráð fyrir að Magnús Scheving haldi áfram sem forstjóri fyrirtækisins og fjárfesti í nýju félagi Turners fyrir söluandvirði síns hlutar í Latabæ, að því er fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag.

Blaðið greinir frá því að Turner Broadcasting hafi boðið 20 prósent hærra verð en félagið, Lazytown Entertainment, var metið á við fjárhagslega endurskipulagningu sem lauk á síðasta ári. Viðskiptablaðið greinir frá því að stjórn Latabæjar hafi leitað að erlendum fjárfestum að undanförnu til að koma að félaginu til að gera því kleift að vaxa. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu í fyrra eignuðust kröfuhafar Latabæjar 60 prósent hlutafjár í Lazytown en Magnús Scheving, forstjóri og stofnandi félagsins, og eiginkona hans Ragnheiður Melsteð halda utan um 40 prósenta hlut. Samkvæmt skilmálum tilboðsins þurfa Magnús og eiginkona hans að fjárfesta í félagi Turners fyrir söluandvirði síns hlutar sem metinn er á 4,8 milljóninir Bandaríkjadala, jafnvirði 556 milljóna króna, og mega ekki selja þann hlut í þrjú ár.

Félagið sem tæki yfir Latabær hefur íslenska kennitölu og er að fullu í eigu Turner Broadcasting. Til stendur að halda hluthafafund í næstu viku, meðal annars til að búa svo um hnútana að yfirtakan geti farið fram. Turner Broadcasting er sagt áhugasamt um að ráðast í gerð nýrrar seríu af Latabæjarþáttum, en þættirnir hafa til þessa verið framleiddir hér á landi. thorbjorn@stod2.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×