Viðskipti innlent

Nýsköpunarsjóður rekinn með hagnaði í fyrra

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins var rekinn með 16 milljóna króna hagnaði árið 2010. Nýsköpunarsjóður seldi hlutafé í fjórum fyrirtækjum á árinu og var söluhagnaður af þeim  234 milljónir króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu en ársfundur  sjóðsins var haldinn í gær.  Stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var endurskipuð. Orri Hauksson var  kjörin formaður stjórnar og tók við af Arnari Sigurmundssyni .  Guðný Hrund Karlsdóttir var kjörin varaformaður.

Í árslok 2010 átti Nýsköpunarsjóður í 35 íslenskum fyrirtækjum. Heildarvelta þessara fyrirtækja var 5.700 milljónir króna, þar af 4.500 milljónir kr. í erlendum gjaldeyri. Alls störfuðu 473 manns hjá þessum fyrirtækjum.

Í lok árs 2010 námu heildareignir sjóðsins  4.837  milljónum króna. Eignarhlutur sjóðsins í fyrirtækjum er metinn á 2.595 milljónir króna og í samlagssjóðum var kaupverð eignarhluta metið á 941 milljón króna.

Á árinu 2010 fjárfesti Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fyrir um 700 milljónir beint í fyrirtækjum en aðrir fjárfestar komu með um milljarð. Samtals fjárfesting í fyrirtækjum tengdum Nýsköpunarsjóði var því um 1.700 milljónir.

Nýsköpunarsjóður seldi eignarhlut í fjórum fyrirtækjum á árinu, 31,6% eignarhlut sinn í Hafmynd ehf., 49% eignarhlut sinn í Sjávarleðri ehf., 7% eignarhlut sinn í IceConsult ehf. og  2% eignarhlut í Marorku og á sjóðurinn enn tæp 15% í Marorku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×