Viðskipti innlent

Nýr hótel- og móttökustjóri á Grand Hótel

Arnar Laufdal Ólafsson hefur tekið við starfi hótelstjóra á Grand Hótel Reykjavík og Gylfi Freyr Guðmundsson hefur verið ráðinn sem móttökustjóri hótelsins.

Í tilkynningu segir að Arnar Laufdal Ólafsson hafi verið ráðinn hótelstjóri á Grand Hótel Reykjavík frá 1. júní og tekur hann við af Ólafi D. Torfasyni sem gegnt hefur starfi hótelstjóra undanfarin 10 ár.

Arnar Laufdal Ólafsson er 41 árs og hefur starfað í veitingageiranum frá unga aldri. Arnar hóf feril sinn á Hótel Borg þar sem hann lærði framreiðslu. Undanfarin 10 ár var hann með eigin rekstur á Broadway og Teiti veisluþjónustu.

Arnar hefur einnig starfað í fjármálageiranum, þ.e. sem viðskiptastjóri hjá Landsbankanum og einnig á eignarstýringarsviði SPH. Arnar nam fjármálafræði við California State University í Chico og útskrifaðist með BS gráðu í fjármálum um jólin 1997.

Arnar er giftur Bryndísi Ólafsdóttur og eiga þau saman þrjú börn.

Gylfi Freyr Guðmundsson hefur verið ráðinn móttökustjóri á Grand Hótel Reykjavík frá 16. maí og tók hann við af Rakeli Óskarsdóttur sem gegnt hafði starfi móttökustjóra undanfarin 4 ár. Gylfi er 31 árs og starfaði á The Merrion Hotel í Dublin frá árinu 2005 þar sem hann var aðstoðarveitingastjóri.

Gylfi er með diplóma í hótelrekstri og ferðaþjónustu frá University Centre César Ritz í Sviss og er hann auk þess með BS gráðu í viðskiptafræði á alþjóðamarkaðssviði frá Tækniháskóla Íslands.

Gylfi er giftur Katarzyna Sosnowska og eiga þau saman tvö börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×