Viðskipti innlent

Spáir óbreyttum stýrivöxtum

Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi 15. júní.  

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að helstu rök fyrir óbreyttum vöxtum eru slakinn í efnahagslífinu, tímabundin veiking krónunnar og að aukin verðbólga er til komin vegna mikilla hækkana í hrávöruverði, veikingar krónu og einskiptisliða en ekki innlendra kostnaðarþátta.

„Við útilokum ekki að nefndin hækki vexti bankans um 0,25 prósentur á grundvelli aukinnar verðbólgu, veikari krónu, aukinna verðbólguvæntinga og ríflegra kjarasamningsbundinna hækkana í nýlegum samningum á vinnumarkaði,“ segir í Morgunkorninu.

„Þróun verðbólgu, gengis og verðbólguvæntinga undanfarið ásamt niðurstöðum kjarasamninga hafa fært væntanlegar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans framar í tímann að okkar mati.

Áður reiknuðum við með því að nefndin myndi byrja að hækka vexti bankans á ný árið 2012 tengt afnámi gjaldeyrishafta og viðsnúningi í hagkerfinu. Nú teljum við að nefndin muni hugsanlega byrja að hækka vexti bankans á þessu ári.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×