Viðskipti innlent

Úlfar Steindórs að eignast Toyota á Íslandi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi.
Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi.
Viðræður um sölu á Toyota á Íslandi eru á lokastigi en Úlfar Steindórsson, forstjóri, freistar þess ásamt Kristjáni Þorbergssyni fjármálastjóra að kaupa félagið af Landsbankanum.

Að viðræðunum koma ríkisbankinn Landsbankinn og skilanefnd Landsbankans sem eiga meirihluta í Toyota á Íslandi. Landsbankinn eignaðist Toyota eftir að félög Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum lentu í greiðsluerfiðlelikum eftir hrunið.

Toyota Motor Marketing Europe sem hefur höfuðstöðvar í Brussel ræður í raun för því fyrirtækið verður að samþykkja umboðsaðila vörumerkisins hér á landi og hefur í raun neitunarvald því ef þeir samþykkja ekki nýjan umboðsaðila Toyota hér á landi verður ekkert af sölu fyrirtækisins.

Fullyrt er að gengið verði frá sölunni á allra næstu dögum. Ekki hefur náðst í Úlfar Steindórsson í dag. En heimildarmenn fréttastofu segja að mikil ánægja hafi verið með störf hans fyrir Toyota á Íslandi eftir að Landsbankinn eignaðist félagið enda gjörþekki hann rekstur félagsins og hafi leitt það í gegnum öldudal hrunsins. Gagnrýnendur segja hins vegar að hann og fjármálastjóri félagsins séu í algjörri sérstöðu sem kaupendur vegna stöðu sinnar og hafi haft forskot yfir aðra væntanlega kaupendur.

Ekki liggur fyrir hvað endanlegt tap Landsbankans verður vegna Toyota, en bankinn fjármagnaði kaup Magnúsar Kristinssonar á félaginu á sjö milljarða króna árið 2005 af Páli Samúelssyni og fjölskyldu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×