Viðskipti innlent

Hugsanlega hægt að hraða afnámi hafta

Höskuldur Kári Schram skrifar
Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason.
Efnahags- og viðskiptaráðherra segir að fimmta endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun íslands feli í sér traustyfirlýsingu á efnahagsstjórnina. Hann útilokar ekki að hægt verði að hraða afnámi gjaldeyrishafta.

Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins afgreiddi í gær fimmtu og næst síðustu endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands. Samstarfinu á að óbreyttu að ljúka næsta haust.

Í yfirlýsingu sem stjórn sjóðsins sendi frá sér í gær kemur fram að búist sé jákvæðum hagvexti á þessu ári. Stjórnvöldum hafi tekist að draga úr hallarekstri ríkissjóðs en hins vegar þurfi að hraða endurskipulagningu á skuldum fyrirtækja og heimila. Sjóðurinn telur ennfremur að launahækkanir og hækkun fasteignaverðs auki verðbólguþrýsting sem gæti hægt á efnahagsbatanum.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að afgreiðsla sjóðsins á efnahagsáætlun íslands sé mikil virði.

„Hún kemur auðvitað í kjölfarið á niðurstöðunni í Icesave atkvæðagreiðslunni. Þetta er traustyfirlýsing við efnahagsáætlunina þetta er traustyfirlýsing við það mikla verk sem við höfum unnið við að koma böndum á ríkisfjármálin og efnahagsstjórnina og það er mjög mikils virði núna,“ segir Árni Páll.

Sjóðurinn segir áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta sé varfærin en jafnframt skynsamleg. Árni Páll útilokar ekki að hægt verði að hraða afnámi gjaldeyrishafta.

„Ef við stöndum okkur vel. Ef hér verður traustur hagvöxtur byggður á raunverulegri verðmætasköpun en ekki bólu, ef að verðbólga verður hér hófleg, þá ættum við að geta komist fyrr í það en ella,“ segir Árni Páll að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×