Viðskipti innlent

Íslendingur semur við Rússa fyrir hönd WTO

Símon Birgisson skrifar
Stefán Haukur Jóhannesson.
Stefán Haukur Jóhannesson.
Íslendingur leiðir viðræður Alþjóðviðskiptastofnunarinnar við Rússa en leiðtogar G8 ríkjanna telja afar mikilvægt að Rússar gangi til liðs við stofnunina sem leggur grunninn að viðskiptum heimsins.

Leiðtogar G8 ríkjanna róa nú öllum árum að því að ljúka viðræðunum við Rússa sem staðið hafa yfir allt frá árinu 1993. Barack Obama, bandaríkjaforseti, hvatti til þess fyrr í vikunni að Rússar gengju til liðs við stofnunina. Stefán Haukur Jóhannesson, formaður samninganefndar Íslands við ESB, leiðir viðræðurnar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar við Rússa.

„Rússland er síðasta stóra hagkerfið sem stendur fyrir utan þessa stofnun, WTO, sem setur grunnreglur fyrir þjóðir heims um viðskipti. Nú er mikill pólitískur meðbyr að þeir gerist aðilar. Rússland er síðasta stóra hagkerfið sem enn stendur fyrir utan,“ segir Stefán.

Er þetta ekki heiður fyrir Íslending að standa í svona stórræðum?

„Þetta er viðamikið verkefni og ég hef sinnt þessu frá 2003. Það er í sjálfu sér gaman að því að það sé fulltrúi Íslands sem sinnir þessu hlutverki og er vísbending um að Ísland sem slíkt hafi góða stöðu í samfélagi þjóðanna,“ segir Stefán en tekur fram að hann sé ekki fulltrúi landsins heldur hlutlægur aðili sem miðli málum.

Hann segir helsti ásteytingarsteinninn vera landbúnaðarmál og reglur um fjárfestingar í Rússlandi. Ekki ósvipað og í samningaviðræðum Íslands við ESB. Mikið sé í húfi.

„Það eru nokkrir mjög erfiðir kaflar eftir og er að renna upp ögurstund í viðræðunum við Rússa,“ segir Stefán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×