Viðskipti innlent

Icesave stöðvaði sölu á Íslandsbanka

Áhugi á Íslandsbanka, sem er til sölu hjá skilanefnd Glitnis, slokknaði þegar niðurstaðan í Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslunni lá fyrir segir formaður skilanefndar Glitnis.

Skilanefnd Glitnis metur 95 prósenta hlut sinn í Íslandsbanka á 111 milljarða króna samkvæmt fjárhagsyfirliti skilanefndar bankans sem endaði í mars síðastliðinum.

Langtímamarkmið Glitnis er að selja Íslandsbanka á næstu þremur til fjórum árum, jafnvel fyrr, en skilanefnd Glitnis hefur þegar ráðið svissneska bankann UBS sem ráðgjafa við söluferlið. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir að niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave hafi seinkað sölunni á bankanum.

Áhugasamur aðili hafði sett sig í samband við skilanefnd Glitnis í gegnum skrifstofu UBS í New York til að kaupa 95 prósenta hlut í Íslandsbanka. Voru óformlegar viðræður hafnar, að sögn Árna, en áhugi viðkomandi slokknaði eftir að niðurstaðan á síðari þjóðaratkvæðagreiðslunni lá fyrir. „Traustið þvarr," sagði Árni.

Í ljósi óvissunnar hafi viðkomandi ekki verið tilbúinn að taka áhættu með fjárfestingu hér á landi. Árni sagðist skynja að erfitt væri að fá fjármagn og nýja fjárfesta inn í landið þar sem traustið á landinu hefði minnkað verulega og sagði hann jafnframt að þetta hefði seinkað áformum Glitnis um sölu á Íslandsbanka.

„Ef okkur tekst að selja bankann til útlendinga þá fáum við gjaldeyri, kröfuhafarnir vilja ekki íslenskar krónur. Með sölunni á bankanum hefði verið hægt að taka mjög stórt skref í átt að afléttingu haftanna, enda söluverðið um 15% af heildarvandanum (þeirri fjárhæð sem situr föst í kerfinu innsk.blm). Við erum búnir að setja þetta á hold í bili," segir Árni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×