Viðskipti innlent

Segja kjarasamning til þriggja ára í uppnámi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Aðilar vinnumarkaðarins saka forystumenn ríkisstjórnarinnar um að ganga á bak orða sinna og segja kjarasamninga til þriggja ára í uppnámi.

Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í byrjun síðasta mánaðar kjarasamninga til þriggja ára. Samhliða undirritun gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu þar sem því var meðal annars heitið að jafna stöðu lífeyrisþega og koma á fót nefndum til að fjalla um kvóta og samgöngumál.

Samningsaðilar telja að ríkið hafi hingað til ekki staðið við þessi fyrirheit og jafnvel unnið gegn þeim. Samkvæmt sérsökum fyrirvara í samningunum er hægt slíta þeim fyrir tuttugasta og annan júní ef stjórnvöld standa ekki við sinn hlut.

Alþýðusambandið hefur þegar gagnrýnt áform ríkisstjórnarinnar um leggja skatt á áunnin lífeyrisréttindi fólks á almennum vinnumarkaði en skattinn á nota til að fjármagna að hluta vaxtaniðurgreiðslur til almennings.

Jóhanna Sigurðardóttir,forsætisráðherra var spurð út í málið á Alþingi í gær.

„Ég trúi því ekki að þetta mál sem er fjármögnun á vaxtaniðurgreiðslum upp á tólf milljarða króna á tveimur árum sem var greitt út í fyrsta skipti í maí til 97 þúsund einstaklinga og komu fólki sannanlega vel sem eru mjög skuldugir og ekki síst í ASÍ félögunum að það skuli verða að því stórmáli að það tefli kjarasamningum til þriggja ára í hættu," sagði Jóhanna.

Nefndirnar tvær sem áttu að fjalla annars vegar kvótamál og hins vegar samgöngumál hafa enn ekki tekið til starfa en upphaflega var miðað við fimmtánda mái í því sambandi. Vilhjálmur Egilson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að þetta skapi mikla óvissu.

„Það er verið að setja okkur, Samtök atvinnulífsins, í alveg vonlausa stöðu," segir Vilhjálmur.

Nauðsynlegt sé að finna leiðir til að auka fjárfestingu í samfélaginu til að gera vinnuveitendum kleift að standa undir umsömdum launahækkunum.

„Við erum bara alls ekki í góðum málum ef samningarnir halda ekki og við erum ekki að fara atvinnuleiðina eins og við ætluðum okkur," sagði Vilhjálmur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×