Viðskipti innlent

Útboð Seðlabankans styrkir aflandsgengi krónunnar

Aflandsgengi krónunnar hefur styrkst verulega í dag. Styrkingin hófst raunar í lok síðustu viku þegar Seðlabankinn kallaði eftir tilboðum í íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri.

Samkvæmt vefsíðunni keldan.is er aflandsgengi krónunnar í dag (kaup/sala) 217/233 krónur fyrir evruna. Í síðustu viku var þetta gengi um 15% lægra en þá stóð kaupgengið í tæpum 250 kr. og sölugengið í 275 kr.

Jón Bjarki Bentsson sérfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka segir að útboð Seðlabankans útskýri þessa styrkingu á aflandsgengi krónunnar. Jón Bjarki segir að þarna hafi erlendir séð tækifæri til að koma krónum sínum yfir í evrur.

Allajafna eru viðskipti með aflandskrónur mjög lítil og stopul og því erfitt að meta á hvaða gengi þær eru metnar í raun.

Útboð Seðlabankans nemur allt að 15 milljörðum kr. og samkvæmt tilkynningu frá bankanum mun það standa yfir í tvær vikur. Um er að ræða lið í að aflétta gjaldeyrishöftunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×