Viðskipti innlent

Stórbankar undirbúa íslenska skuldabréfaútgáfu

Þrír erlendir stórbankar munu halda fundi með fjárfestum dagana 1. til 8. júní þar sem þessum fjárfestum verður kynnt útgáfa íslenskra skuldabréfa í erlendum gjaldeyri á alþjóðamörkuðum. Bankarnir sem hér um ræðir eru Barclays Capital, Citigroup og UBS.

Fjallað er um málið í frétt á Reuters og einnig á vefsíðunni Automarket Trader en þar er tekið fram að um sé að ræða fyrstu útgáfu íslenskra stjórnvalda á alþjóðamörkuðum frá því fyrir hrunið haustið 2008. Hafi íslensk stjórnvöld fengið fyrrgreinda banka til liðs við sig í þessu máli.

Áður hefur komið fram í erlendum fjölmiðlum að íslensk stjórnvöld hafa mikinn áhuga skuldabréfaútgáfu erlendis. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur viðrað þessar hugmyndir bæði á Reuters og Bloomberg fréttaveitunni og þá rætt um að farið yrði af stað seinnihluta þessa árs.

Fram kemur í frétt Reuters að eftir uppkaup á tveimur skuldabréfaflokkum fyrr í ár þurfi íslenska ríkið að standa skil á 454 milljónum evra í lok árs og upphafi þess næsta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×