Viðskipti innlent

Fjörutíu prósent lána í vanskilum

Um 40 prósent útlána stóru bankanna þriggja eru í alvarlegum vanskilum, en hlutfallið hefur lítið breyst síðasta árið. Seðlabankastjóri segir það ekki endilega áfellisdóm yfir skuldaúrræðum banka og stjórnvalda.

Seðlabankinn birti nýjasta hefti Fjármálastöðugleikans á fundi með blaðamönnum í dag. Þar er fjallað um stöðu fjármálakerfisins, en einn af helstu áhættuþáttum þess er sagður sá að mat á eignum banka og sparisjóða er enn háð mikilli óvissu. Þá hafi endurskipulagning útlána gengið hægt, og einkum falist í framlengingu lána.

Í ritinu kemur fram að alls eru 40% heildarútlána stóru viðskiptabankanna í alvarlegum vanskilum, eða greiðsla þeirra er talin ólíkleg. Fjörutíu og fimm prósent útlána til fyrirtækja eru þannig í vanskilum, en um fimmtungur útlána til heimila, þar með talin lán Íbúðalánasjóðs. Á öllum þessum vígstöðvum hefur vanskilahlutfallið lítið sem ekkert lækkað á milli ára.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segist aðspurður ekki telja þetta áfellisdóm yfir þeim aðgerðum sem bankar og stjórnvöld hafa gripið til til að lækka skuldir heimilanna.

Már segir að þrátt fyrir þetta væri æskilegt að endurskipulagning skulda gengi hraðar, einkum þegar kemur að fyrirtækjum. „Það má nú ekki gleyma því að þetta var náttúrulega mjög mikið fjármálaáfall sem hér varð og þá rjúka þessi vanskil upp og það tekur tíma að vinna úr því. Ég er ekkert viss um þegar þetta verður borið saman við aðrar mjög stórar kreppur að við séum eitthvað mikið öðruvísi hvað það varðar."

Þá útilokar Már ekki að mæld vanskil séu meiri en raunverulegt tilefni er til, meðal annars þar sem sumir hafi ákveðið að hætta að greiða af lánum vegna lagalegrar óvissu um eðli lánsins. Hann segir að þrátt fyrir það þurfi að draga úr þeim hluta lánasafnsins sem sé í óvissu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×