Viðskipti innlent

Scandic hótelin fá umhverfisverðlaun

Kaffið sem veitt er á Scandic er lífrænt
Kaffið sem veitt er á Scandic er lífrænt
Scandic-keðjan hlýtur verðlaunin fyrir að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu á Norðurlöndum og um allan heim. Meðvituð umhverfisstefna og litlar einfaldar aðgerðir hafa haft í för með sér mikinn ávinning. Norrænu umhverfisverðlaunin verða afhent ásamt þremur öðrum norrænum verðlaunum, fyrir bókmenntir, kvikmyndir og tónlist, á Norðurlandaráðsþingi í byrjun nóvember.

 

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2011 eru veitt fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu. Verðlaunin, sem nema 350.000 dönskum krónum, eru veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur dregið úr skaðlegum umhverfisáhrifum ferðaþjónustu á Norðurlöndum.

 

Verðlaunahafinn er Scandic hótelakeðjan, sem í nær tvo áratugi hefur verið í farabroddi á sviði sjálfbærrar ferðaþjónustu.

 

- Scandic hefur síðan 1994 gengið á undan með góðu fordæmi og dregið úr mengandi áhrifum starfseminnar og hafa margir fylgt þeirra fordæmi, bæði í hótelageiranum og samfélaginu í heild sinni. Scandic hefur sýnt þor með því að gera kröfur til birgja og bjóða gestum að taka þátt í að reyna að uppfylla vistvæn markmið, t.d. með því að minnka þvott og flokka úrgang, skrifar dómnefndin í rökstuðningi sínum.

 

Það var starfsmaður Scandic sem fékk þá hugmynd að leggja til að hótelagestir spöruðu þvott á handklæðum og Scandic var einnig meðal þeirra fyrstu sem notuðu fljótandi sápu. Smáatriði sem hafa haft mikil áhrif og eru notuð á hótelum um allan heim.

 

Á árinu 1993 ákváðu forráðamenn Scandic að bæta umhverfisvitund starfsfólks og hafa rúmlega 11.000 starfsmenn fengið fræðslu um umhverfismál. Þá hafa 19.000 hótelaherbergi verið byggð úr sjálfbærum byggingarefnum. Alls hafa 114 af 147 hótelum í keðjunni fengið Svansmerkið, umhverfisviðurkenningu Norrænu ráðherranefndarinnar, sem gerir hvað ströngustu kröfur til umhverfisverndar.

 

Vatnsnotkun Scandic hefur frá 1994 minnkað um 17%, orkunotkun um 22% og koltvísýringslosun um 38%.

 

Kaffið sem veitt er á Scandic er lífrænt og vatnið er ekki úr plastflöskum. Samkvæmt umhverfisbókhaldi Scandic hefur koltvísýringslosun vegna vatnsflutninga minnkað um 160 tonn á ári.

 

Náttúru- og umhverfisveðlaun Norðurlandaráðs byggja á norrænum gildum um sjálfbærni og virðingu fyrir náttúrunni.

 

Þau eru veitt stofnun, fyrirtæki eða einstaklingi, sem sett hefur fordæmi með því að samþætta virðingu fyrir náttúru og umhverfi í starfi sínu, eða með því að sýna frumkvæði á annan hátt að sértækum aðgerðum náttúru og umhverfi til góða.

 

Náttúru- og umhverfisverðlaunin nema, eins og verðlaunin fyrir bókmenntir, tónlist og kvikmyndir, 350.000 dönskum krónum (u.þ.b. 50.000 evrum) og verða afhent við hátíðlega athöfn ásamt hinum verðlaununum á árlegu þingi Norðurlandaráðs þann 2. nóvember 2011.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×