Handbolti

Nær Rhein-Neckar Löwen þriðja sætinu? - í beinni á Sporttv

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson í undanúrslitaleiknum í gær.
Ólafur Stefánsson í undanúrslitaleiknum í gær. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Úrslitin ráðast í Meistaradeildinni í handbolta í dag og verður hægt að sjá bæði úrslitaleikinn og leikinn um þriðja sætið í beinni á Sporttv.is. Það verður alspænskur úrslitaleikur en áður munu Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í Rhein-Neckar Löwen reyna að tryggja sér þriðja sætið.

Rhein-Neckar Löwen mætir þýsku meisturunum í HSV Hamburg í leiknum um þriðja sætið sem hefst klukkan 13.15 að íslenskum tíma. Liðin mættust tvisvar í þýsku deildinni í vetur og vann Hamburg báða leikina, með einu marki á heimavelli sínum (32-31) og svo með fjórum mörkum í síðasta leik sem fram fór á heimavelli Löwen (31-27).

Ólafur Stefánsson skoraði fjögur mörk í undanúrslitaleiknum í gær en það er vonandi að Guðmundur leyfi þeim Róberti Gunnarssyni og Guðjón Val Sigurðssyni að spreyta sig á eftir því þeir fengu ekkert að fara inn á í gær.

Klukkan 16.00 mætast síðan spænsku liðin Ciudad Real og Barcelona í sjálfum úrslitaleiknum. Barcelona hefur unnið Evrópukeppni meistaraliða oftast allra eða sjö sinnum en það eru liðin sex ár (2005) síðan Barca-liðið vann síðast. Ciudad Real á hinsvegar möguleika á því að vinna Meistaradeildina í fjórða sinn á sex árum en í hin þrjú skiptin hafði liðið reyndar Ólaf Stefánsson innanborðs.

Það er hægt að nálgast útsendingarnar á Sporttv með því að smella hér en seinna í dag verður kvennalandsleikur Íslands og Svíþjóðar einnig sýndur þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×