Viðskipti innlent

Hefði mátt auka hagvöxt um 2%

JMG skrifar
Ragnar Árnason hagfræðiprófessor.
Ragnar Árnason hagfræðiprófessor.
Með réttri hagstjórn hefði hagvöxtur á árinu 2010 getað verið um tvö prósent í stað þriðja mesta samdráttar á lýðveldistímanum, segir hagfræðiprófessor. Ríkisstjórnin hafi í byrjun kreppunnar hækkað skatta þvert á hagfræðistefnur og dregið þannig mátt úr fyrirtækjum og heimilum.

Ragnar Árnason hagfræðiprófessor hjá Háskóla Íslands var gestur á morgunverðarfundi Deloitte um skattabreytingar í Turninum í morgun. Hann flutti þar erindi um skattheimtur og hagvöxt.

„Meginniðurstaða mín er sú að þessi kreppa sem við erum núna í hún sé að stórum hluta vegna mistaka í hagstjórn og rangrar efnahagsstefnu, og að á árinu í fyrra þegar samdráttur þjóðarbúskapsins var 3,5 prósent, þriðja mesta samdráttarár á lýðveldistímanum hefðum við getað haft hagvöxt," sagði Ragnar.

Hann segir ástæðu þessa vera að hér sé mikið ónotað vinnuafl og ríkar náttúruauðlindir sem við erum ekki að nýta til fullnustu. Íslendingar hafi alla fjármuni og getu til að framleiða meira. Mistökin í hagstjórninni séu því mörg. „Það má segja að flest af því sem að þessi ríkisstjórn hefur gert í efnahagsmálum hafi verið í ranga átt, það sem stendur upp úr er ótæpileg skattheimta á krepputímum þegar allar hagfræðibækur segja að það eigi að lækka skatta frekar, þá hafa skattar verið hækkaðir og það hefur dregið mátt úr fyrirtækjum og heimilum sem máttu nú eiginlega ekki við því," segir Ragnar ennfremur.

Stjórnvöld hafi staðið fyrir of háum raunvöxtum, gjaldeyrishömlum og stöðugum hótunum og skattheimtu á grundvallaratvinnuvegi svo sem sjávarútveg og orkuvinnslu.

„Allt skapar þetta mikla óvissu og áhyggjur og dregur úr vilja manna til að fjárfesta og hætta fé sínu með þeim afleiðingum að bæði fyrirtæki og einstaklingar fara úr landi eða bara halda að sér höndum og bíða að þessu linni," segir Ragnar.

Þetta kostar Íslendinga töluverðar fjárhæðir á ári hverju. Á árinu 2010 varð hér 3,5 prósenta samdráttur í landsframleiðslu sem hægt er að meta á um 30-40 milljarða króna. Ragnar telur að hér hefði með réttri hagstjórn getað verið hagvöxtur upp á 2 prósent. „Heildar kostnaður ef við hefðum haft hagvöxt á árinu 2010 í stað samdráttar þá er það 80 milljarðar króna," segir Ragnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×