Viðskipti innlent

FME krefst þess að LSR hækki iðgjöldin um 4%

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur krafist þess að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hækki iðgjöld sjóðsfélaga í A-deild sjóðsins um 4% þannig að þau verði 19,5% í heildina. Með þessu náist jafnvægi á tryggingafræðilega stöðu sjóðsins.

Fjallað er um málið á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins en þar kemur fram að á síðasta ári hafi staða A-deildar sjóðsins verið neikvæð um 12% eða rúmlega 47 milljarða kr.

Lífeyrissjóðurinn hefur mætt þessum kröfum eftirlitsins með því að benda á reglur um almenna lífeyrissjóði sem er heimilt að hafa neikvæða stöðu upp á 10%. Þessu hafnar Fjármálaeftirlitið og segir að sérlög gildi um sjóðinn sem gangi framar þeim lögum sem gilda á almennum markaði.

Um þetta segir á vefsíðu eftirlitsins: „... er það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að lög ... um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins séu sérlög sem gildi um LSR og gangi framar almennum ákvæðum laga ... um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Í lögum eru skilyrðislaus fyrirmæli um að stjórn LSR beri að endurskoða iðgjald launagreiðenda árlega. Við þá endurskoðun skuli það sjónarmið ráða för að hrein eign A-deildar LSR til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda til A-deildar LSR séu á hverjum tíma jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Það er því ljóst að stjórn LSR ber árlega að endurskoða iðgjald launagreiðenda með hliðsjón af tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins á þann veg að ekki sé munur á eignaliðum og lífeyrisskuldbindingum.

Iðgjöld til A- deildar LSR eru nú 15,5% af launum, þar af eru iðgjöld sjóðfélaga 4% og iðgjöld launagreiðenda 11,5%. Ætlað er að hækka þyrfti heildariðgjaldið um 4 prósentustig eða í 19,5%, til að heildarstaða A-deildar sjóðsins yrði í jafnvægi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×