Handbolti

Undanúrslit þýska bikarsins í beinni á Stöð 2 Sport í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Það verður mikið um dýrðir í Color Line Arena í Hamburg í dag þegar undanúrslitaleikir þýsku bikarkeppninnar í handbolta fara fram. Tvö Íslendingalið eiga þá möguleika á því að komast í bikarúrslitaleikinn á morgun og það er hægt að sjá báða leikina beint á Stöð 2 Sport. Úrslitaleikurinn verður síðan einnig í beinni á morgun.

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Kiel mæta Frisch Auf Göppingen í fyrri leiknum klukkan 11.15 og verður sá leikur í beinni á Stöð 2 Sport 3. Alfreð á möguleika á því að gera Kiel-liðið að bikarmeisturum í annað sinn á þremur árum. Aron Pálmarsson leikur með Kiel og þetta er eini stóri titilinn sem hann hefur ekki unnið með félaginu.

Það hefur ekkert félag unnið þýska bikarinn jafnoft og Kiel sem hefur orðið bikarmeistari 1998, 1999, 2000, 2007, 2008 og svo 2009. Þetta er líka eini möguleikinn á titli fyrir Alfreð og strákana hans á þessu tímabili.

Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í Rhein-Neckar Löwen mæta Flensburg-Handewitt í seinni undanúrslitaleiknum sem hefst klukkan 13.15 og verður í beinni á Stöð 2 Sport. Löwen-liðið hefur verið á miklu skriði að undanförnu og er að reyna að vinna sinn fyrsta stóra titil í sögu félagsins.

Löwen tapaði bikarúrslitaleiknum í fyrra og þá léku þeir Ólafur Stefánsson og Guðjón Valur Sigurðsson með liðinu eins og nú. Róbert Gunnarsson kom hinsvegar til liðsins fyrir þetta tímabil en hann tapaði bikarúrslitaleiknum með Gummersbach á móti Kiel fyrir tveimur árum. Þeir hafa því allir harma að hefna um helgina.





Undanúrslit þýska bikarsins í handbolta (Final-Four)11.15 Frisch Auf Göppingen - THW Kiel (Beint á Stöð 2 Sport 3)

13.15 Flensburg-Handewitt - Rhein-Neckar Löwen (Beint á Stöð 2 Sport)

Úrslitaleikurinn fer síðan fram á morgun og verður einnig í beinni á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×