Handbolti

Rhein-Neckar Löwen komst ekki í bikarúrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Það verður Flensburg-Handewitt sem spilar til úrslita um þýska bikarinn í handbolta á móti Kiel á morgun eftir að Flensburg sló út Guðmund Guðmundsson og lærisveina hans í Rhein-Neckar Löwen í dag. Flensburg vann leikinn 22-20.

Ólafur Stefánsson skoraði fimm mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen og Róbert Gunnarsson var með tvö mörk. Guðjón Valur Sigurðsson spilaði líka með en aðallega í vörninni. Ólafur var allt í öllu í sóknarleik Löwen í seinni hálfleik og kom þá að flestum mörkum liðsins, skoraði 4 mörk sjálfur og átti fjölda stoðsendinga þar á meðal tvær inn á Róbert á línunni.

Rhein-Neckar Löwen var með forystu í byrjun en Flensburg skoraði fjögur mörk í röð á níu mínútna kafla, komst yfir í 6-4 og var eftir það með frumkvæðið fram að hálfleik.

Ólafur klikkaði á þremur fyrstu skotum sínum í leiknum en skoraði sitt fyrsta mark þegar hann minnkaði muninn í 9-8.

Flensburg var síðan 10-8 yfir í hálfleik en það var ekki síst fyrir frábæra markvörslu Sören Rasmussen sem varði 10 bolta í fyrri hálfleik.

Rhein-Neckar Löwen byrjaði seinni hálfleikinn vel og náði strax að jafna leikinn og svo að komast yfir í 13-12.

Liðsmenn Flensburg náðu þá öðrum frábærum spretti þegar þeir breyttu stöðunni úr 15-15 í 19-16 á sex mínútna kafla en voru því í góðum málum þegar tíu mínútur voru eftir.

Löwen skoraði hinsvegar næstu þrjú mörk og jafnaði metin í 19-19 þegar fimm mínútur voru eftir en Flensburg-liðið var fljótt að ná forskoti á ný.

Thomas Mogensen kom Flensburg í 20-19, Sören Rasmussen varði síðan sitt 19. skot í leiknum og Tamas Mocsai kom Flensburg í 21-19. Uwe Gensheimer minnkaði muninn í 21-20 af vítalínunni en Löwen missti síðan mann útaf í tvær mínútur og því var róðurinn þungur á lokamínútunum.

Lasse Svan Hansen tryggði Flensburg síðan sigurinn þegar hann kom Flensburg í 22-20 þegar 27 sekúndur voru eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×