Viðskipti innlent

Fitch Ratings: Gjaldeyrishöftin áfram ef Icesave verður fellt

Eina leiðin til þess að koma á stöðugu efnahagsástandi á Íslandi er að leysa Icesave deiluna, segir Paul Rawkins, forstjóri matsfyrirtækisins Ficth Ratings, um þá stöðu sem upp er komin á Íslandi eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, synjaði nýju Icesave-frumvarpi staðfestingar. Paul segir í viðtali við fréttastofu Reuters að þá sé nauðsynlegt fyrir Ísland að leysa úr deilunni til þess að aflétta gjaldeyrishöftunum, en vonir stóðu til að aflétta þeim að hluta til á árinu.

Matsfyrirtækið Fitch lækkaði einkunnir ríkissjóðs fyrir erlendar skuldbindingar niður í spákaupmennskuflokk, þ.e. BB+, í kjölfar ákvörðun forseta Íslands um að vísa Icesave-samningnum til þjóðaratkvæðagreiðslu sem átti sér stað í janúar á síðasta ári. Þar erum við enn.

Paul segir ennfremur að á meðan deilan sé í þeirri stöðu sem hún er nú verði mjög erfitt fyrir Ísland að fá lán á alþjóðlegum lánamörkuðum.

Hann er þó bjartsýnn í viðtalinu og vitnar til að breið samstaða hafi náðst um málið á þinginu auk þess sem hann skynjar meiri meðvind með frumvarpinu nú en þegar kosið var um það á síðasta ári. Hann segir að lokum að stærsta málið sem sé á dagskrá Íslendinga sé að aflétta gjaldeyrishöftum, það sé þó ólíklegt að það gerist á meðan deilan er óleyst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×