Innlent

Sýknaður af sérstaklega hættulegri líkamsárás

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Maður fæddur 1989, sem dæmdur var í níu mánaða fangelsi í héraðsdómi og til greiðslu hálfrar milljónar í skaðabætur fyrir að slá annan mann með glasi var í dag sýknaður í Hæstarétti. Tveimur dómurum af þremur fannst ekki sannað að ákærði hafi framið það afbrot sem hann er ákærður fyrir og var hann því sýknaður. Þriðji dómarinn skilaði sératkvæði þar sem hann segir að þótt ýmsa annmarka megi finna á rannsókn lögreglu á málinu leiði það ekki til ómerkingar héraðsdóms og vildi hann því staðfesta dóm héraðsdóms.

Maðurinn var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa í október 2008 slegið annan karlmann fyrir utan veitingastað í Reykjavík með glerglasi. Fórnarlambið hlaut nokkra skurði vinstra megin í andlitið. Í dómi Hæstaréttar segir að tvö vitni að árásinni hafi ekki getað gefið lýsingu á árásarmanninum auk þess sem annað vitni hafi hvorki fyrir dómi né hjá lögreglu staðfest að ákærði hafi ráðist á fórnarlambið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×