Innlent

Aðeins ein þyrla sinnir skyldum Landhelgisgæslunnar

Björgunarþyrlan Gná er ein eftir.
Björgunarþyrlan Gná er ein eftir. Mynd/Arnþór Birkisson
Landhelgisgæslan hefur aðeins eina þyrlu þessa stundina til að sinna leitar-, eftirlits- og björgunarstörfum yfir öllu landinu og miðunum. Sjómenn segja að öryggi þeirra hafi ekki verið jafn illa borgið í marga áratugi.

Björgunarþyrlunni Eir var skilað til leigusala í gær og flaug hún út í gærkvöldi. Stóra þyrlan Líf er í stórri skoðun og óflughæf á meðan og þá er aðeins björgunarþyrlan Gná eftir, sem er leiguþyrla frá Noregi. Eftirlitsflugvélin Sif er í leiguverkefni í Eyjahafi, Varðskipið Ægir í leiguverkefni við strendur Senegals og sjómælingabáturinn Baldur er bundinn við bryggju vegna fjárskorts. Varðskipið Týr, er á heimleið frá Færeyjum, þar sem það tók meðal annars olíu í sparnaðarskyni, en kemur væntanlega inn á íslenska bjögunarsvæðið í dag, þannig að þá verða þar ein þyrla og eitt varðskip til taks.

Ef farið er aftur til þess tíma sem Varnarliðið var hér, var Gæslan með tvær þyrlur og Varnarliðið með fimm, auk eldsneytisvélar, og þá voru þrjú varðskip gerð út við Íslandsstrendur. Eftir að Varnarliðið fór, var fjölgað í íslensku þyrlusveitinni upp í fjórar þyrlur, en nú eru aðeins tvær eftir, þar af önnur í skoðun, og aðeins tvö varðskip eftir og annað þeirra í leigu.

Að sögn Georgs Lárussonar, forstjóra Landhelgisgæslunnar, hefði nánast blasað við að loka stofnuninni vegna fjárskorts, ef erlendu leiguverkefnin hefðu ekki komið til sögunnar. Það komi meðal annars í veg fyrir að segja þurfi upp þjálfuðu starfsfólki, sem komi til góða, þegar betur fer að ára.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×