Innlent

Vonast eftir betri niðurstöðu í kosningunum

Jón Gnarr.
Jón Gnarr.

„Þetta eru nú ákveðin vonbrigði. Ég stóð í þeirri trú að við myndum bæta við okkur jafnt og þétt. Ég hef stefnt að því allan tímann að ná hreinum meirihluta til að við getum staðið fyrir einhverjum alvöru breytingum í borginni," segir Jón Gnarr, efsti maður á lista Besta flokksins.

„Ég hef fulla trú á því og vona það svo innilega að við náum hreinum meirihluta svo það verði alveg gleði í gegn og Reykvíkingar geti átt bjarta og skemmtilega framtíð með Besta flokknum."

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar vill gera betur í kosningunum en í könnuninni. „Við teljum atvinnumálin vera stærsta málið og erum eini flokkurinn sem er að kynna raunhæfa aðgerða-áætlun í þeim málaflokki. Ég vona því að eftir að hefur verið talið upp úr kössunum þá verði staða okkar enn sterkari en þetta gefur til kynna," segir Dagur B.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, vonast eftir betri niðurstöðu í kosningunum. „Við erum að sækja á miðað við síðustu könnun Fréttablaðsins þótt aðrar nýlegar skoðanakannanir hafi sýnt okkur eitthvað hærri. Ég vonast auðvitað til þess að niðurstaðan úr kosningunum færi okkur fleiri borgarfulltrúa og að íbúar í Reykjavík kjósi með áframhaldandi árangri án skattahækkana og nýjum vinnubrögðum í stjórnmálum," segir Hanna Birna.

Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna, hafði fátt um könnunina að segja.

„Ég hef fátt um þetta að segja. Ég ætla bara að nota daginn á morgun til að halda áfram að tala við fólk. Við erum á baráttufundi í Iðnó þar sem er brjálæðisleg stemning og brjálæðislega margir. Við ætlum bara að fara út og sannfæra fólk og það mun alveg örugglega takast," segir Sóley Tómasdóttir.

- shá

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.