Innlent

Mikil þörf á góðri nýliðun

Á síðasta ári fannst talsvert magn af seiðum en þau hafa ekki skilað sér í stofninn. Fréttablaðið/úr safni
Á síðasta ári fannst talsvert magn af seiðum en þau hafa ekki skilað sér í stofninn. Fréttablaðið/úr safni
Mikil þörf ríkir nú á góðri nýliðun ef sandsílastofninn á ekki að gefa enn frekar eftir, að mati Hafrannsóknastofnunar, eftir fyrstu mælingar á stofninum.

Ellefu daga sandsílaleiðangri Hafrannsóknastofnunar á skipinu Dröfn RE 35 lauk 15. júlí síðastliðinn. Farið var á fjögur svæði, Breiðafjörð, Faxaflóa, Vestmannaeyjar að Vík og Ingólfshöfða, en þetta er fimmta árið í röð sem farið er í slíkan leiðangur.

Uppistaðan í aflanum var þriggja ára síli, af árgangi 2007, en þessi árgangur hefur verið ríkjandi í stofninum síðastliðin þrjú ár. „Verulega hefur gengið á árganginn, eins og eðlilegt má teljast,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.

Fram kemur að fyrstu niðurstöður séu háðar óvissu því þær byggist eingöngu á lengdarmælingum á síli en ekki á aldurslesningum. Á næstu mánuðum fer fram aldursgreining á sýnum ársins og frekari úrvinnsla.

Fram kemur að í fyrra hafi fundist talsvert magn af seiðum, en þau hafi ekki skilað sér í stofninn nú sem eins árs síli í þeim mæli sem væntingar stóðu til. Einnig virðist árgangur 2008 af sílum vera slakur. Styrkur árgangsins komi endanlega í ljós á næsta ári.- kg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×