Innlent

Orgelráðgjafi Hörpu fannst látinn

David Sanger Gaf út yfir tuttugu hljómplötur og var stundum kallaður einn farsælasti orgelleikari heims.
David Sanger Gaf út yfir tuttugu hljómplötur og var stundum kallaður einn farsælasti orgelleikari heims.
Heimsfrægur organisti, sem vann sem ráðgjafi við uppsetningu orgels í tónlistarhúsið Hörpu, fannst látinn á laugardag. Organistinn, David Sanger, hafði fyrr í vikunni mætt fyrir rétt, sakaður um að hafa misnotað gróflega unga drengi árin 1978 til 1982.

Breska blaðið Daily Telegraph greinir frá málinu, og segir að Sanger hafi fundist á heimili sínu í bænum Embleton. Rannsókn hafi ekki leitt neitt grunsamlegt í ljós.

Sanger var formaður Konunglegu organistasamtakanna í Bretlandi, sem vernduð eru af drottningunni, prófessor við Konunglegu tónlistarakademíuna í Bretlandi og hefur verið gestaprófessor víða. Hann hefur gefið út yfir tuttugu hljómplötur og hefur verið kallaður einn farsælasti orgelleikari heims.

Hann var handtekinn fyrr í maí eftir að lögreglunni bárust kærur á hendur honum fyrir kynferðisbrot frá fyrri tíð. Hann mætti fyrir rétt á fimmtudag og var sleppt gegn tryggingu. Hann átti næst að mæta fyrir dóminn 21. júlí.

Fram kemur í frétt Daily Telegraph að Sanger hafi undanfarið starfað sem ráðgjafi við uppsetningu nýs orgels í Bach-stíl í Háskólanum í Strathclyde, sem og við „nýtt orgelverkefni fyrir Íslenska tónlistarhúsið í Reykjavík“. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×