Innlent

Lögreglumenn vilja rafbyssur

Að kvöldi 21. janúar 2009. Nokkrir lögreglumenn slösuðust í búsáhaldabyltingunni.
Að kvöldi 21. janúar 2009. Nokkrir lögreglumenn slösuðust í búsáhaldabyltingunni.
Ofbeldi gagnvart lögreglumönnum fer vaxandi. Á síðasta ári hlutu 38 lögreglumenn varanlegan skaða vegna ofbeldis sem þeir urðu fyrir við skyldustörf en árinu á undan voru þeir 29. Formaður Landssambands lögreglumanna segir að tryggja verði öryggi lögreglumanna með rafbyssum.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir að taka verði ákvörðun fljótlega um hvort taka eigi rafbyssur í notkun. „Það er sýnt að þessi tæki koma í veg fyrir meiðsli á lögreglumönnum og jafnframt þeim sem lögregla þarf að hafa afskipti af,“ segir Snorri.

Undanfarin þrjú ár hefur verið til skoðunar hvort að taka eigi rafbyssur í notkun hér á landi. Spurður hvort ekki þurfi að fara að taka ákvörðun í málinu segir Snorri: „Að okkar mati þarf að fara að taka ákvörðun um hvort lögregla eigi að taka þetta tæki í notkun. Eftir því sem við komumst næst hefur tækið fengið jákvæða umsögn hjá embætti landlæknis og fleirum aðilum sem höfðu það til umsagnar. Það helst í hendur við viðlíka rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis. Það hefur verið staðfest að tækið er öruggt í notkun.“

Snorri segir að ekki þurfi lagabreytingu til að taka rafbyssurnar í notkun en hugsanlega þurfi að breyta ákvæðum um valdbeitingarheimildir lögreglu í reglugerð. Hann segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að notkun tækisins verði heimiluð hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×