Handbolti

Þórir Evrópumeistari með Noregi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP

Noregur varð í dag Evrópumeistari í handbolta eftir sigur á Svíum í úrslitaleik í Herning í Danmörku, 25-20.

Þórir Hergeirsson er landsliðsþjálfari Noregs og vann í dag sinn fyrsta titil sem aðalþjálfari liðsins. Hann var í mörg ár aðstoðarþjálfari Marit Breivik en undir stjórn hennar vann norska liðið marga stórtitla.

Þetta er í fjórða sinn í röð sem Noregur verður Evrópumeistari og í fimmta sinn frá upphafi. Liðið tryggði sér einnig með sigrinum þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012.

Svíar voru sterkari í fyrri hálfleik í dag og náðu mest þriggja marka forystu. Norðmenn skoruðu hins vegar tvö síðustu mörk hálfleiksins og staðan að honum loknum var 11-10.

Norðmenn keyrðu svo yfir Svía í upphafi síðari hálfleiks og þegar staðan var orðin 19-13 eftir stundarfjórðung var ljóst í hvað stefndi. Þær norsku gáfu lítið eftir og unnu sem fyrr segir öruggan sigur.

Noregur hefur nú unnið nítján sinnum til verðlauna á stórmótum í handbolta en liðið hefur einu sinni orðið heimsmeistari, árið 1999, og einu sinni Ólympíumeistari, árið 2008.

Þórir tók við sem aðalþjálfari í fyrra og vann bronsverðlaun með norska liðinu á HM í Kína í fyrra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×