Fastir pennar

Sjúkdómseinkenni

Ólafur Stephensen skrifar

Dómur Hæstaréttar, um að óheimilt sé að binda lán í íslenzkum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, hefur í raun enn aukið á óvissuna um stöðu skuldara. Enn gæti þurft að leita atbeina dómstólanna til að fá úr því skorið hvað gerist næst; hvort þeir sem tóku myntkörfu­lánin eru skyndilega miklu betur settir en aðrir skuldarar, eftir að hafa verið verst settir, eða hvort leyft verði að binda lánin við vísitölu eða þá hækka á þeim vextina og miða við lægstu óverðtryggða vexti.

Dómurinn vekur nýjar spurningar um hvernig eftirliti með fjármálastofnunum var háttað fyrir hrun. Hvernig má það vera að útbreitt lánsform, sem æ fleiri sóttu í eftir því sem vextir hækkuðu, reyndist ólöglegt? Af hverju gripu eftirlitsstofnanir ekki í taumana - eða þá löggjafinn, sem hefði getað breytt lögum þannig að þessi eftirsóttu lán yrðu lögleg?

Burtséð frá því hvert framhaldið verður er rétt að staldra við þá staðreynd að þeir sem fengu myntkörfulánin hefðu aldrei fengið lán til langs tíma á jafnlágum vöxtum og um ræddi, nema með verðtryggingu af einhverju tagi. Íslenzka krónan hefur reynzt svo óstöðugur og óáreiðanlegur gjaldmiðill að enginn hefur viljað lána til langs tíma nema með vísitölubindingu, viðmiðun við erlenda mynt eða þá gríðarlega háum vöxtum, sem verja lánveitandann fyrir hugsanlegri rýrnun á verðgildi krónunnar. Þetta er það verð, sem almenningur hefur þurft að greiða fyrir ónýtan gjaldmiðil.

Mörgum þóttu myntkörfulánin aðlaðandi kostur, vegna þess að með þeim fengu menn vaxtakjör svipuð og almenningi í löndum sem búa við stöðugan gjaldmiðil bjóðast. Flestir voru meðvitaðir um gengisáhættuna, en lánin voru svo miklu hagstæðari en venjuleg verðtryggð lán á íslenzkum ofurvöxtum að menn töldu sig geta þolað 20-30% gengisfall.

Enginn gerði ráð fyrir að erlendir gjaldmiðlar tvöfölduðust í verði við hrun krónunnar. Þegar það gerðist, voru myntkörfulánin orðin mun síðri kostur.

Eftir Hæstaréttardóminn, sem væntanlega bætir stöðu myntkörfulánþega, benda sumir á hlutskipti þeirra sem tóku venjuleg, verðtryggð lán og hafa mátt horfa á þau hækka um margar milljónir eftir hrun, þótt alltaf hafi verið staðið í skilum. Það fólk er fórnarlömb hruns krónunnar, ekki síður en þeir sem tóku myntkörfulánin. Gengishrunið olli verðbólgu, sem aftur olli hækkun lánanna.

Það er hins vegar óskiljanlegt þegar einarðir talsmenn þess að Ísland haldi áfram að búa við krónuna leggja til að verðtrygging verði afnumin. Enginn mun lána til langs tíma í íslenzkum krónum nema hafa tryggingu fyrir því að fá endurgreitt í jafnverðmætum krónum og hann lánaði. Einhvers konar verðtrygging, eða þá ofurvextir, verður hlutskipti okkar ef við kjósum að búa áfram við krónuna. Að halda öðru að almenningi er tóm blekking.

Aðgerðir til að mæta skuldavanda heimilanna, sem margir kalla eftir, eru í raun aðeins meðhöndlun á einkennum sjúkdómsins, sem felst í smáum og óstöðugum gjaldmiðli. Varanleg lækning fæst aðeins með því að skipta um gjaldmiðil.


















×