Handbolti

Ísland þarf að gera eins og Úkraína

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Leikmenn Úkraínu fagna eftir sigurinn á Þýskalandi í gær.
Leikmenn Úkraínu fagna eftir sigurinn á Þýskalandi í gær. Nordic Photos / AFP
Úkraína vann í gær ótrúlega tíu marka sigur á Þjóðverjum og tryggði sér þar með sæti í milliriðlakeppninni en þær þýsku sátu eftir með sárt ennið.

Þjóðverjar máttu tapa með sjö mörkum í gær og þannig hefðu þær samt komist áfram í milliriðlakeppnina.

Svo virðist sem að Þjóðverjarnir hafi ekki vitað af þessu og það var ekki fyrr en að þeir tóku leikhlé skömmu fyrir leikslok að leikmönnum var beinlínis sagt að þær mættu ekki tapa með meira en sjö marka mun.

Þá var það orðið of seint og Úkraína fagnaði sigri, 33-23.

Ísland er í nákvæmlega sömu stöðu og Úkraína var í í gær. Ísland mætir Rússlandi og þarf þá helst að vinna með átta mörkum til að komast áfram. Ef Ísland vinnur með minni mun þurfa stelpurnar okkar að stóla á að Króatía nái minnst jafntefli gegn Svartfjallalandi í dag.

Fram kemur á heimasíðu mótsins að forráðamenn úkraínska liðsins hafi verið búnir að ganga frá bókunum á farseðlum til Kænugarðs nú strax að lokinni riðlakeppninni. En nú þarf að afturkalla þær bókanir.

Að sama skapi hafa Þjóðverjar lokið keppni á mótinu. Þeir voru ekki með nein plön um að fara heim nú og áttu enga pantaða flugmiða heim frá Noregi svo snemma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×