Viðskipti innlent

Íslandsbanki íhugaði að kaupa Byr af kröfuhöfum

Íslandsbanki á verulegra hagsmuna að gæta í endurskipulagningu Byrs sparisjóðs. Breiðengi ehf , eignarhaldsfélag Íslandsbanka á um 3,3% stofnfjár í Byr en auk þess lánaði Glitnir stofnfjáreigendum í Byr tíu milljarða króna þegar stofnfjáraukning í sparisjóðnum fór fram árið 2007. Þau lán eru að miklu leyti í vanskilum. Þá er Íslandsbanki einnig kröfuhafi í Byr.

Samkvæmt heimildum fréttastofu sýndi Íslandsbanki áhuga á að taka með beinum hætti þátt í endurskipulagningu Byrs sparisjóðs og voru hugmyndir um að Íslandsbanki keypti kröfuhafa Byrs út og tæki yfir sparisjóðinn meðal annars viðraðar. Það hefði þýtt að framlag ríkisins til sparisjóðsins yrði mun lægra en ella og jafnvel ekki neitt. Ekki mun þó verða úr þessum áætlunum.

Þær upplýsingar fengust frá Íslandsbanka að bankinn hafi alltaf haft áhuga á að koma að endurskipulagningu Byrs og hafi bankinn fylgst náið með atburðarrásinni. Íslandsbanki hafi átt í samskiptum við forráðamenn Byrs vegna þessa en engar formlegar viðræður hafi farið fram.

Endurskipulagning Byrs er á lokastigi en það sama á við um endurskipulagningu annarra sparisjóða. Heimildir herma að stefnt sé að því að ljúka því verkefni á næstu tveimur vikum. Endurskipulagning sparisjóðakerfisins er meðal þess sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur áherslu á að sé lokið þegar önnur endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands fer fram.

Samkvæmt heimildum fréttastofu verður stofnfé Byrs fært niður um allt að 90% og mun ríkissjóður leggja sjóðnum til um 10 milljarða króna. Gangi þessar áætlanir eftir verður ríkið stærsti eigandi Byrs.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.