Körfubolti

Boston jafnaði aftur metin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Glen Davis og Nate Robinson fagna í leiknum í nótt.
Glen Davis og Nate Robinson fagna í leiknum í nótt. Mynd/AP

Boston Celtics jafnaði í nótt metin í úrslitaeinvíginu gegn LA Lakers, 2-2, með sigri í leik liðanna í Boston, 96-89.

Í þetta sinn voru það varamenn Boston sem gerðu gæfumuninn en alls skoruðu þeir 36 stig í leiknum, þar af 21 í fjórða leikhluta. Það þýddi að flestir byrjunarliðsmannanna sátu lengst af bekknum á lokakafla leiksins á meðan að Nate Robinson, Glen Davis, Tony Allen og Rasheed Wallace kláruðu leikinn.

Sigur Boston var nokkuð öruggur en leikurinn var nokkuð jafn lengst af. En í upphafi fjórða leikhluta tóku heimamenn völdin og náðu að skora sjö stig í röð á stuttum leikkafla. Þetta bil náði Lakers aldrei að brúa.

Glen Davis skoraði fimm af þessum sjö stigum og en hann skoraði alls átján stig í leiknum. Paul Pierce var stigahæstur með nítján og Kevin Garnett var með þrettán.

Hjá Lakers var Kobe Bryant stigahæstur með 33 stig og Pau Gasol var með 21. Lamar Odom var með tíu stig en aðrir með minna.

Næsti leikur rimmunnar fer fram í Boston á sunnudag en það verður síðasti leikurinn í rimmunni sem fer fram þar. Sjötti leikurinn fer fram á þriðjudaginn í Los Angeles og oddaleikurinn á fimmtudaginn ef þörf er á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×