Innlent

Ríkissaksóknari óttaðist reiði almennings

SB skrifar
Af heimasíðu Ríkissaksóknara. Upplýsingarnar í Daníelsslippsmálinu er þar enn að finna.
Af heimasíðu Ríkissaksóknara. Upplýsingarnar í Daníelsslippsmálinu er þar enn að finna.
Persónuvernd hefur úrskurðað að Ríkissaksóknara beri að afmá rannsóknarskjöl um lát tveggja manna í Daníelsslipp af heimasíðu embættisins. Ríkissaksóknari birti skjölin í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringaþáttsins Kompáss um málið en ættingjar mannana tveggja sættu sig ekki við þau málalok að mennirnir hefðu svipt sig lífi í bílnum.

Í úrskurði Persónuverndar segir Ríkissaksóknari að gögnin hafi verið birt, meðal annars vegna ótta við aðgerðir almennings, en mikil reiði hafi verið í samfélaginu í kjölfar hrunsins. Ríkissaksóknari hefur enn ekki fjarlægt gögnin, þrátt fyrir úrskurð Persónuverndar þess efnis.

Forsaga málsins er sú að Ríkissaksóknari fór þess á leit við lögregluna að rannsókn yrði hafin á nýju á láti Einars Þórs Agnarssonar og Sturlu Sveinssonar. Þeir fundust látnir í bíl við Daníelsslipp þann 1. mars 1985. Krafa Ríkissaksóknara kom í kjölfar þrýstings frá ættingjum og almenningi. Fjallað var um áralanga baráttu ættingjanna við að fá málið tekið upp að nýja, bæði í DV og Kompási og að lokum lét Ríkissaksóknari undan.

Í úrskurði Persónuverndar segir Ríkissaksóknari að þær rangfærslur og ásakanir sem opinberlega voru settar fram hafi verið alvarlegar fyrir embættið, "enda ríkissaksóknari og lögregla þar sökum um slæleg vinnubrögð og nánast samsæri til að koma í veg fyrir rannsókn á alvarlegum glæp."

Fullyrðingar aðstandenda hafi gengið þvert á staðreyndir málsins. "Ríkissaksóknari taldi að ásakanir sem þessar væru til þess fallnar að auka vantrú og valda reiði og tortryggni í garð umræddra yfirvalda."

Þess vegna ákvað Ríkissaksónknari að birta frumgögn rannsóknar á heimasíðu embættisins. En svo virðist sem aðstandendur í málinu hafi ekki sætt sig við þá birtingu þar sem um viðkvæmar persónuupplýsingar var um að ræða; meðal annars krufningsskýrslur og frumgögn í málinu, sem einnig hafi ratað til fjölmiðla.

Ríkissaksóknari segir í úrskurðinum að embættið hafi talið það skyldu sína að upplýsa almenning um staðreyndir málsins, sem hafi verið gert með birtingu gagnanna. "Það að fella út kafla úr niðurstöðunni yrði aðeins til að sá tortryggni eins og komið var," segir Ríkissaksóknari, og ennfremur: "Slíkt hefði ekki síður verið alvarlegt eftir hrun bankakerfisins þar sem reiði almennings gat brotist út af minnsta tilefni með alvarlegum afleðingum."

Þrátt fyrir að Persónuvernd hafi úrskurðað að birting gagnanna stangist á við lög um Persónuvernd og krafið Ríkissaksóknara að fjarlægja gögnin af vef sínum hefur Ríkissaksóknari ekki orðið við því. Gögnin má enn finna á heimasíðu embættisins.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×